Meistaramót | Reglur og upplýsingar
263
page-template-default,page,page-id-263,translatepress-is_IS,ajax_fade,page_not_loaded,,qode_grid_1300,footer_responsive_adv,qode-content-sidebar-responsive,qode-theme-ver-10.1.2,wpb-js-composer js-comp-ver-6.0.5,vc_responsive

Reglur og upplýsingar

Reglur og upplýsingar

INTERNATIONAL PAIRS 

Meistaramótið í betri bolta fer nú fram í þriðja skipti og er forkeppni til að velja fulltrúa Íslands í óopinberri heimsmeistarakeppni í betri bolta, lokamóti International Pairs golfmótsins. International Pairs Worldwide var stofnað í Englandi 1999 og hefur síðan þá vaxið jafnt og þétt í það að verða að stórum alþjóðlegum viðburði. Viðburðurinn er sérstakur fyrir þær sakir að allir golfarar yfir 18 ára aldri hafa þar tækifæri til að verða fulltrúar lands síns á jafnréttisgrundvelli og óháð getustigi.

Skipuleggjendur viðburðarins – Sódavatnssystur ehf. (kt: 480317-0760), í samstarfi við styrktaraðila, áskilja sér allan rétt til breytingar á meðfylgjandi reglum upp að því marki sem nauðsynlegt er til að hægt sé að halda viðburðinn á tilhlýðilegan hátt.

 

Öll undanmótin eru framkvæmd í mótakerfi Golfbox.  Golfbox sér alfarið um útreikninga á forgjöf og leikforgjöf og fer mótsstjórn alfarið eftir þeirra útreikningum.

 

Með því að skrá sig til þátttöku í Meistaramótinu í betri bolta staðfesta keppendur að þeir muni fara eftir og hlýta þeim reglum sem settar eru fram í þessu skjali.

 

Meistaramótið í betri bolta fellur undir reglu 4-2 g í áhugamannareglum R&A varðandi greiðslu á keppniskostnaði og hefur sambandið staðfest það.

Við vonum að þú njótir þess að taka þátt í Meistaramótinu í betri bolta og hlökkum til að sjá þig á vellinum.

Ef einhverjar spurningar vakna hafið þá endilega samband við skipuleggjendur í netfangið info@meistaramot.is.

OPIN UNDANKEPPNI

 • Meistaramótið í betri bolta er keppni þar sem heiðarleiki og drengskapur eru í fyrirrúmi.
 • Allir kylfingar á Íslandi, 18 ára og eldri, sem skráðir eru í golfklúbb og hafa gilda forgjöf eru gjaldgengir þátttakendur í Meistaramótinu í betri bolta.
 • Undankeppnin fer fram á tvennan hátt:
  • A. Kylfingar taka þátt í einu eða fleiru af opnu mótunum.
  • B. Kylfingar taka þátt í hermamóti Meistaramótins í Betri Bolta og Golfhallarinnar.

Sumarið 2022 verða haldin nokkur opin mót. Þar er spilað í tveggja manna liðum-betri bolti. Báðir liðsmenn þurfa að skrá sig í mótið. Efstu liðin úr hverju móti öðlast keppnisrétt í lokamótinu í Kiðjabergi ágúst 2022.

 

LOKAMÓTIÐ

 • Íslenska lokamótið er spilað í tveggja manna liðum, betri bolti. Gestir skulu vera 18 ára eða eldri, skráðir í golfklúbb og með gilda forgjöf. Liðin sem vinna til verðlauna í opnu mótunum keppa saman í lokamótinu.
 • Geti annar liðsmaður úr vinningsliði ekki keppt á lokamótinu er liðinu heimilt að skipta út öðrum liðsmanni.
 • Geti liðið af einhverjum ástæðum ekki þegið sæti í lokamótinu skal sætið ganga til þess liðs sem kom næst á eftir.
 • Lokamótið í Kiðjabergi er þeim sem hafa öðlast þátttökurétt þar að kostnaðarlausu.
 • Ef lokamótið verður að einhverjum ástæðum ekki haldið munu þeir keppendur sem tryggt hafa sér sæti í lokamótinu fá teiggjald á golfvellinum í Kiðjabergi í staðinn.

UPPLÝSINGAR FYRIR KEPPENDUR

 

 • International Pairs er einn stærsti viðburður sinnar tegundar í heiminum og óopinber heimsmeistarakeppni áhugamanna í betri bolta.
 • Framkvæmd íslenska lokamótsins og heimsmeistaramótsins er eins nálægt atvinnumannamótum og mögulegt er. Jafntefli verða útkljáð í bráðabana eftir því sem hægt er.
 • Hundruð þúsunda golfara hafa tekið þátt í undankeppnum International Pairs um allan heim.
 • Umgjörð lokamótanna er engu lík og eitthvað sem allir ættu að gefa sér kost á að upplifa.
 • Meistaramótið í betri bolta leggur áherslu á keppni með skemmtun, gleði og íþróttamannslega hegðun að leiðarljósi.
 • Opin undankeppni fyrir íslenska lokamótið er haldin með það að markmiði að gefa sem flestum möguleika á því að vinna sér inn rétt til þátttöku í lokamótinu.
 • Eftir lokamótið standa tveir kylfingar uppi sem sigurvegarar og fulltrúar Íslands í heimsmeistaramótinu. 
 • Þátttaka í heimsmeistaramótinu er sigurvegurum íslenska lokamótsins að kostnaðarlausu.
 • Miði er möguleiki, ein leið til að komast í íslenska lokamótið er með þáttöku í hermamótinu í Golfhöllinni þar sem efstu 3 liðin vinna sér inn keppnisrétt.   Hin leiðin er að taka þátt í einu eða fleirum af opnu mótunum en þaðan munu efstu liðin úr hverju móti komast í lokamótið.
 • Sigurvegarar íslenska lokamótsins, og þar með fulltrúar Íslands í heimsmeistaramótinu, geta ekki tekið þátt í íslensku undankeppninni árið eftir.

FORGJAFARMÁL

 

 • Allir þátttakendur skulu hafa löglega forgjöf.
 • Í Meistamótinu í Betri Bolta, í bæði undankeppninni, íslenska lokamótinu og á heimsmeistaramótinu er notast við ¾ af forgjöf.
 • Hámarksforgjöf í íslenska lokamótinu og heimsmeistaramótinu er 32 fyrir karla og 36 fyrir konur, eða 24 og 27 miðað við ¾ af forgjöf. Þetta breytir því ekki að öllum er heimil þátttaka, óháð forgjöf.
 • Í íslenska lokamótinu spilar leikmaður á forgjöf eins og hún stendur þegar mótið fer fram. 
 • Í heimsmeistaramótinu spilar leikmaður á forgjöf eins og hún stendur þegar mótið fer fram sé hún lægri eða jöfn forgjöf leikmannsins eins og hún var í íslenska lokamótinu. Hafi hún hækkað spilar hann á forgjöf eins og hún var í íslenska lokamótinu. 
 • Gefi leikmaður upp rangt skor, hvort sem er í undankeppninni eða á síðari stigum er honum vísað úr keppni, jafnvel þó um sé að ræða einföld mistök. 
 • Sama á við ef leikmaður skrifar undir rangt skorkort á síðari stigum

ÍSLENSKA LOKAMÓTIÐ

 

 • Alls vinna 40-50 kylfingar/lið sér sæti í lokamótinu. Lið mega samanstanda af tveimur körlum, tveimur konum eða einum karli og einni konu.
 • Lokamótið er betri bolti með ¾ forgjöf.
 • Ef tvö eða fleiri lið verða jöfn í efsta sæti gerist eftirfarandi:
  1. Besta skorið á holum 10-18 ræður. Ef enn er jafnt þá skor á holum 13-18, síðan 16-18 og að lokum skor á 18 holu ef enn er jafnt.
  2. Ef enn er jafnt skal telja stakar holur aftur á bak frá 17 til 1.
  3. Ef óviðráðanlegar aðstæður, s.s. veður, koma í veg fyrir að hægt verði að klára keppnisdaginn er mótstjórn heimilt að stytta hringinn í 9 holur.
  4. Ef ekkert sigurlið fæst eftir ofangreint er sigurliðið valið með hlutkesti.  
 • Ákvörðun um hvort leik skuli haldið áfram í erfiðum aðstæðum er á forræði dómara eða stjórnanda keppninnar.
 • Ef mótinu er frestað af óviðráðanlegum orsökum verður fundin ný dagsetning og keppendur halda sæti sínu. Komist keppandi ekki í slíku tilfelli færist keppnisréttur til þess leikmanns sem var í næsta sæti á eftir í undankeppninni og svo koll af kolli.
 • Sigurvegarar lokamótsins verða krýndir sigurvegarar Meistarmótsins í betri bolta 2022 og verða fulltrúar Íslands í lokamóti International Pairs á Spáni.
 • Ýmis önnur verðlaun verða svo veitt í lokahófi mótsins.

HEIMSMEISTARAMÓTIÐ – LOKAMÓT INTERNATIONAL PAIRS

 

 • Ísland á eitt sæti í lokamóti International Pairs.   
 • Mótið fer fram í nóvember  2022.
 • Ef mótinu er frestað af óviðráðanlegum orsökum verður fundin ný dagsetning og keppendur halda sæti sínu. Komist annar keppenda ekki í slíku tilfelli er hinum leyfilegt að velja annan til að fara með sér. Komist hvorugur færist keppnisréttur til þess liðs sem var í öðru sæti í íslenska lokamótinu.
 • Keppendur bera ábyrgð á eigin ferðatryggingum og ferðagögnum.

 

 

Sjáumst hress á golfvellinum.